Árabátar
Í byggðum Vestfjarða voru fiskveiðar miklvægasti bjargræðisvegurinn ásamt hlunnindum í bjargi, fjöru og á sjó. Landshættir og veðurfar leyfðu ekki mikinn búsmala, aðeins nokkrar kindur og eina kú eða tvær á betri búum. Árabátar voru helsti farkosturinn og á þeim var róið til fiskjar. Heimræði var stundað nánast frá hverjum bæ, í það minnsta vor og haust, og nauðsynlegt hverjum bónda að eiga góðan bát.
Verstöðvar voru þar sem stutt var að róa á mið og lending ákjósanleg. Oft var það á annesjum þar sem stutt var á fiskimið. Bændur og vinnumenn komu í verið seint að hausti og bjuggu í verbúðum. Haustvertíð stóð fram á jólaföstu og þá fóru menn yfirleitt til heimkynna sinna. Eftir áramót komu þeir aftur á vetrarvertíð og sóttu sjóinn fram á lokadag 11. maí. Veiðarfærið var lengst af handfæri, með öngli og sökku. Síðar komu til fiskilínur eða lóðir, með mörgum önglum, sem lagðar voru út með sökku og flotholtum, látnar liggja í sjó um tíma og dregnar inn á höndum. Stórbændur við Ísafjarðardjúp gerðu út báta sína frá Bolungarvík meginhluta ársins og mönnuðu þá með hjáleigubændum og vinnumönnum.
Ítarefni
Aflinn var á fyrri öldum þurrkaður í steinbyrgjum, en á seinni öldum var hann flattur og saltaður til útflutngins. Steinbítur, þyrsklingur og annað tros máttu vermenn herða sjálfir eða salta til eigin nota. Besti fiskurinn var lagður inn í verslunina til að kaupa nauðsynjar svo sem korn, kaffi og veiðarfæri. Útgerðin gaf góðan arð, þegar vel fiskaðist.
Vermenn bjuggu í verbúðum. Oftast voru tveir menn í hverju fleti. Hver maður hafði með sér eigin mat í skrínum, hertan fisk, kjöt og feitmeti, tólg og smjör. Ekki var til siðs að taka með sér mat í veiðiferðir, heldur aðeins mysudrukk. Undirbúningur veiðiferðar hófst eldsnemma að morgni eða seint að nóttu, með því að menn mötuðust. Þá þurfti að beita lóðirnar og gera klárt fyrir sjóferð. Þegar allt var tilbúið var báturinn settur fram á hlunnum og róið á miðin. Veiðiferðin gat tekið frá 8 upp í 16 tíma, eftir því hvort róið var á grunnmið eða djúpmið. Þegar komið var í land var báturinn settur, aflanum skipt á milli áhafnar og útgerðar, gert að og aflinn verkaður. Fiskurinn flattur og lagður í salt. Lóðirnar voru stokkaðar upp, svo þær væru tilbúnar til beitningar. Að því loknu gafst loks tími til matar og hvíldar.
Á síðari hluta 19. aldar var mikil aukning í veiði árabáta við Ísafjarðardjúp og sjóþorp og þéttbýli myndaðist víða við sjóinn, svo sem í Hnífsdal, Arnardal, Súðavík, á Folafæti, í Ögurnesi og ekki síst í Bolungarvík. Verslanirnar á Ísafirði, sérstaklega Ásgeirsverslun, stofnuðu útibú víða á verslunarsvæðinu með fiskmóttöku og saltsölu. Samkeppni var mikil um viðskipti við útvegsbændur og að tryggja sér aflann blautan og hálfverkaðan, eða fullverkaðan. Saltfiskurinn var helsta uppspretta auðs á þessum tíma, bæði í sveitunum, við sjóinn og í kaupstaðnum. Bætt verslunarkjör og aukin útgerð árabáta var undirstaða íbúafjölgunar í sveitum Vestfjarða seint á 19. öld og framyfir aldamótin.
Hákarlaveiðar voru mikilvæg grein fiskveiðanna á fyrri hluta 19. aldar. Þá var lýsi unnið úr hákarlalifur verðmætasta útflutningsafurð landsmanna. Hákarlaveiðar voru stundaðar á stærstu árabátum, sexæringum og stærri, en síðar á þilskipum. Veiðiferðir gátu tekið nokkra sólarhinga. Stundum var lifrin skorin úr fiskinum og hræinu hent, en oft var kjötið af hákarlinum kasað og hengt upp til þurrkunar og þótti herramannsmatur. Lifrin var soðin og lýsið var notað til að götuljósa í borgum Evrópu. Hákarlaveiðar á opnum bátum voru stundaðar allt fram um 1920 frá Gjögri og fleiri verstöðvum á Ströndum og Hornströndum. Hákarlaveiðarnar viku smám saman fyrir þorskveiðum, þegar saltfiskurinn steig í verði og markaðir í Suður-Evrópu opnuðust með betri og opnari verslunarháttum. Með vélbátabyltingunni eftir 1900 breyttist öll aðstaða. Þá fluttist útgerðin í þorpin og bæina, þar sem hafnaraðstaða var best og þjónusta til staðar. Smám saman hurfu árabátaþorpin af kortinu en vélaöldin tók við.