Íslenska

Þilskip

Íslendingar horfðu um aldir á erlenda fiskimenn stunda veiðar á þilskipum á miðunum kringum landið. Sjálfir tóku þeir ekki skrefið úr árabátum á skútur fyrr en á 19. öld. Vestfirðingar voru í forystu þilskipaútgerðar. Flest skipin voru gerð út af kaupmönnum, sem réðu yfir fjármagni og stunduðu jafnframt saltfiskvinnslu, inn- og útflutning. Þilskipin stunduðu bæði hákarlaveiðar og þorskveiðar á handfæri. Hver veiðiferð gat tekið upp í nokkrar vikur, en aðbúnaður sjómanna var allur betri en á árabátunum. Þorskurinn var flattur og saltaður um borð. Útgerðartíminn var frá því í mars á vorin til október á haustin og í hverri áhöfn voru frá 12 og upp í 30 menn. Með útgerð þilskipa safnaðist upp auðmagn í landinu og grundvöllur skapaðist fyrir þéttbýli á verslunarstöðum.

 

 

Ítarefni

Vestfirðingar héldu forystu í útgerð þilskipa lengst af 19. öldinni. Árið 1831 áttu Vestfirðingar 13 þilskip og 1847 voru þau orðin 36. Af þeim áttu kaupmenn 23 en bændur 13. Flest voru þilskipin lítil í fyrstu og mörg smíðuð innanlands, en síðar komu stærri skonnortur og kútterar til sögunnar. Þilskipin gáfu af sér aukinn afla, meiri verslunarumsvif og góðan ábata, þegar vel gekk, bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn. Um miðja nítjándu öld hafði þilskipaútgerð fest sig í sessi allt frá Flatey í Breiðafirði til Ísafjarðar. Helstu útgerðarstaðir voru Ísafjörður, Flateyri, Þingeyri, Bíldudalur og Flatey, en jafnframt var nokkur bændaútgerð, bæði í Dýrafirði, Önundarfirði og við Djúp.

 

Hákarlaveiðarnar gáfu góðan arð á meðan hákarlalýsi hélst í háu verði og var notað til að lýsa upp götur í borgum Evrópu. Útgerð bænda stóð í blóma á þeim tíma, því það þurfti minna fjármagn og umstang að bræða lýsi, heldur en að þurrka saltfisk. Eftir 1870 fluttist áherslan yfir á þorskveiðarnar og aukinn kraftur færðist í útgerðina. Úthald skipanna lengdist, saltfiskverkunin krafðist aukins vinnuafls og framkvæmdir fylgdu í kjölfarið.

 

Þilskipaútgerð, verslun og saltfiskvinnsla voru upphaf nýrra atvinnuhátta á Íslandi. Sjávarútvegurinn losnaði smám saman úr fjötrum gamla skipulagsins og varð sjálfstæð atvinnugrein í tengslum við verslunina. Fleiri fengu atvinnu við fiskveiðar og fiskverkun stóran hluta úr ári og losnuðu úr vistarbandi landbúnaðarins. Upp risu þorp og bæir við sjávarsíðuna, þar sem verkafólk og sjómenn settust að og sköpuðu sér líf með því að selja vinnuafl sitt til kaupmanna og útgerðarmanna. Smám saman óx fram nýtt samfélag, bæjarsamfélag með nýrri stéttaskiptingu. Undirstaða þess voru sjálfs sín ráðandi þurrabúðarfólk, verkafólk og sjómenn, þá komu iðnaðarmenn sem þjónuðu útgerð, verslun og almenningi og loks kaupmenn og embættismenn sem skreyttu tertuna. Þannig varð nítjánda öldin upphaf nútímans á Íslandi.

Myndir með Ítarefni