Togarar
Iðnbylting Íslendinga varð með útgerð togara og vélbáta. Togaraútgerð var fjárfrek og flest togarafélög voru hlutafélög, oft í eigu fyrrum skútumanna og skipstjóra. Arðurinn af togveiðum var margfaldur á við fyrri útgerðarhætti. Togararnir voru að veiðum allt árið. Á haustin veiddu þeir botnfisk, sem var ísaður til sölu í erlendum höfnum, á veturna var veitt í salt til fullvinnslu í landi og á sumrin stunduðu þeir síldveiðar. Togaraútgerð Íslendinga byggðist upp í Reykjavík og Hafnarfirði eftir 1905 og festist í sessi á Ísafirði og Patreksfirði eftir 1924.
Nýsköpunartogararnir streymdu til landsins á árunum 1947-1950. Flestir þeirra voru gerðir út af bæjarútgerðum eða hlutafélögum með aðild bæjarfélaga. Ísborg og Sólborg voru gerðir út af Ísfirðingi, hlutafélagi í eigu bæjarins og einstaklinga. Með skuttogurum hófst nýtt tímabil í útgerðarsögu landsins. Árið 1974 voru 54 skuttogarar gerðir út á landinu og urðu yfir eitt hundrað þegar mest var. Þá voru skuttogarar í hverju plássi. Samhliða var mikil uppbygging í frystihúsum um allt land.
Ítarefni
Matur og aðstaða um borð í togurum var öll miklu betri en á skútunum. Kjöt var á borðum upp á hvern dag og nóg af brauði og tei. Íslendingar tóku upp breska togarasiði og höfðu jafnvel jólaköku með kaffinu daglega. En vinnan var erfið og vökur miklar. Fyrstu vinnuverndarlög á Íslandi, Vökulögin um 6 stunda lágmarkshvíld togaraháseta á sólarhring, voru sett árið 1921. Hásetar á togurum stofnuðu Hásetafélag Reykjavíkur árið 1915. Næstu þrjá áratugi var félagið brjóstvörn verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Aukinn afli og tekjur fylgdu togaraútgerðinni. Togaraútgerðin flýtti þróun íslensks samfélagsins til nútíma með þéttbýlismyndun, stéttaskiptingu og bæjarmenningu.
Danskir, íslenskir og enskir fjármálamenn reyndu fyrir sér í togaraútgerð á Íslandi kringum aldamótin 1900. Allar tilraunirnar mistókust. Það var loks með útgerð togarans Coot frá Hafnarfirði 1905-1908, sem ábatasöm togaraútgerð sannaði sig á Íslandi. Íslensk togaraútgerð tók stökk á næstu árum. Meðal togara sem þá voru gerðir út voru Eggert Ólafsson frá Patreksfirði 1911-1913 og Jarlinn frá Ísafirði 1913-1916. Erfiðleikar við útvegun aðfanga og kafbátahernaður Þjóðverja varð til þess að helmingur togaraflotans, 10 skip, voru seld úr landi árið 1917.
Eftir 1920 komu nýrri og stærri togarar búnir öflugri vélum og spilum. Þá voru gerðir út frá Ísafirði togararnir Hávarður Ísfirðingur og Hafstein og Patreksfjörður festi sig í sessi sem togarabær með útgerð Vatneyrarfeðga. Togararnir sóttu nú á dýpri mið eins og Halann út af Vestfjörðum. Það var mikið áfall þegar tveir togarar fórust með allri áhöfn, 67 mönnum, í Halaveðrinu 7. febrúar 1925.
Skömmu eftir að nýsköpunartogararnir komu til landsins rann upp erfiðleikaskeið í togaraútgerð. Breskir og þýskir togarar sóttu aftur á Íslandsmið og aflinn dróst saman. Togararnir voru sendir á fjarlæg mið við Grænland og Nýfundnaland. Með minnkandi afla varð erfiðara að manna togarana. Dæmi voru um að menn væru „sjanghæjaðir“ í sex vikna túra á togara, beint af öldurhúsum Reykjavíkur. Gjaldeyrishöft og millifærslukerfi í sjávarútvegi bitnuðu hart á togaraútgerðinni. Togaraútgerð lagðist af á Vestfjörðum eftir 1965, þegar Gylfa BA var lagt. Tímabili síðutogaranna lauk.
Skuttogararnir nýju báru hráefni að landi allt árið í hraðfrystihúsin, sem unnu fiskinn til útflutnings, til Bandaríkjanna, Bretlands, Japan og Sovétríkjanna. Mikill uppgangur varð í sjávarplássum, nýjar íbúagötur og jafnvel heilu íbúahverfin risu. Áratuginn 1970-1980 fjölgaði íbúum Vestfjarða. Vestfirðingar nutu góðs af nálægðinni við gjöful þorskmið, en í kjölfar svartrar skýrslu um ástand þorskstofnsins 1975 voru veiðar takmarkaðar og kvótakerfi komið á 1983. Um sama leyti færðist fiskvinnsla að hluta út á sjó með frystitogurum. Minnkandi þorskafli, kvótakerfi, fækkun togara og starfa hafa sett mark sitt á samfélagþróun síðustu ára, einkum á Vestfjörðum. Nú er Ísafjörður eini bærinn á Vestfjörðum þar sem togaraútgerð er stunduð. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS er flaggskip vestfirska flotans.