Vélbátar
Árið 1902 markaði tímamót í íslenskri útgerðarsögu. Þá ákváðu þeir Árni Gíslason formaður og Sophus Nielsen verslunarstjóri á Ísafirði að setja vél í bát sinn, sexæringinn Stanley. Það var fyrsti vélbátur Íslendinga sem gekk til fiskveiða. Á fyrstu vertíð Stanleys í Bolungarvík veturinn 1903, mætti þessi nýjung tortryggni, þar sem talið var að vélarhljóðin fældu fiskinn burt. Sú varð ekki raunin og Stanley aflaði vel. Innan fárra ára voru flestir útvegsmenn komnir með vélar í báta sína. Bátunum fjölgaði og byggðin þéttist. Fólksfjöldi í bæjum og þorpum á Vestfjörðum tók kipp á fyrsta áratug vélbátanna. Að hluta til flutti fólk úr sveitum og sjóþorpum árabátatímans í þorp og bæi sem gátu boðið hafnaraðstöðu fyrir vélbáta og þjónustu við útgerðina.
Ítarefni
Fljótlega var tekið að gera út stærri báta með öflugri vélar. Fyrsti dekkbáturinn á Ísafirði var Harpa, sem Karl Löve skipstjóri og Helgi Sveinsson bankaútibússtjóri eignuðust 1905. Fjöldi sjálfstæðra útgerðarmanna spreyttu sig á útgerð. Fyrst er að nefna fyrrverandi formenn á árabátum og kaupmenn, en fleiri komu að, bæði iðnaðarmenn og verslunarmenn. Flestum vegnaði vel. Á Ísafirði var öll þjónusta til staðar fyrir útgerðina, örugg höfn, bryggjur, kaupmenn sem keyptu fiskinn til verkunar og seldu olíu, salt, öngla og línur og það sem meira var um vert. Hér störfuðu margir hagir skipasmiðir og í bænum var starfrækt vélsmiðja, ein sú fyrsta á landinu, til viðhalds og viðgerða á vélum. Allt hjálpaði til. Aukinn afli og verðmæti, aukin vinna og fólksfjöldi.
Sókn ísfirsku vélbátanna á árunum eftir 1912 var gríðarlega hörð á vetrarvertíðinni. Í svartasta skammdeginu sóttu bátarnir, 15-25 lestir að stærð, út undir Halann, suður undir Jökul og allt suður í Faxaflóa og Miðnessjó. Þegar svo langt var komið frá heimahöfn var aflanum, söltuðum þorski, landað í Sandgerði eða jafnvel Reykjavík. Annars var siglt með aflann alla leið til Ísafjarðar.
Sjómenn á vélbátunum komu flestir frá Ísafirði, en líka úr öðrum byggðarlögum við Djúp. Þeir voru vanir árabátum og minni mótorbátum og þótti því sem þeir væru komnir á hafskip. Aðrir komu af skútunum. Skipstjórarnir voru oftast ungir og kappsamir, því eldri formennirnir héldu áfram á minni bátunum. Vinnuharka þekktist áður, en sjaldan sem við þessar veiðar. Ef fiskirí var gott náðu menn kannski að kasta sér í einn eða tvo tíma á baujuvaktinni. Þá urðu hásetar að standa í tilgerð, einsog aðgerðin var kölluð, á landstíminu, eftir síðustu lögn og sjá svo um að landa aflanum, þegar komið var í höfn. En það var sóst eftir þessum plássum, því launin voru góð, þegar vel aflaðist. Það voru sjómenn á þessum bátum, sem stofnuðu hásetafélag á Ísafirði veturinn 1916.