Íslenska

Bakaraiðn

Bakarí hafa boðið fram brauð og kökur til sölu á Ísafirði frá árinu 1871, þegar grunnurinn var lagður að Gamla bakaríinu, sem enn starfar. Fyrstu bakararnir voru Norðmenn, Danir og Þjóðverjar, en innlendir bakarar lærðu fljótt iðnina af þeim. Fyrir og um miðja síðustu öld voru starfandi 5 bakarí á Ísafirði. Bakaríin byggðu að mestu á dönskum hefðum, en jafnframt var ein af undirstöðunum hart bakkelsi, skonrok, bakað fyrir sjómenn. Bakarí hafa komið og farið á Ísafirði en Gamla bakaríið, elsta fyrirtæki bæjarins, er enn fastur punktur í miðbænum og annað bakarí, Bakarinn stendur við Hafnarstræti.

 

Ítarefni

Fyrsta bakarí á Ísafirði stofnaði Th. Thorsteinsson, kaupmaður og alþingismaður, árið 1871. Var það þriðja brauðgerðarhús sem stofnað var á landinu. Bakaríið var til húsa í Miðkaupstað og hefur verið alla tíð síðan. Thorsteinsson byggði stórt tveggja hæða íbúðar- og verslunarhús úr timbri, á þeim stað sem nú er Gamla bakaríið og flutti heimili og starfsemi sína þangað. Í fyrstu var ráðinn danskur bakarasveinn, en fljótlega tók við Norðmaðurinn Jacob Bye. Hann stofnaði Norska bakaríið við Silfurgötu árið 1884. Hús Thorsteinssonar brann árið 1918 og keypti Tryggvi Jóakimsson brunarústirnar og Gamla bakaríið árið 1920. Bakaríið var sett upp í bakhúsi við Aðalstræti. Nýtt verslunarhús var byggt 1934-5 við Aðalstræti 24 og sölubúð Gamla bakarísins hefur verið þar síðan. Yfirbakari í Gamla eftir 1920 var Hans G. Häsler frá Þýskalandi. Hann var handtekinn af Bretum árið 1940 og færður í fangabúðir á eyjunni Mön. Aðalbjörn Tryggvason, sonur Tryggva, tók við stjórn bakarísins eftir að hann kom heim frá námi í Danmörku árið 1950 og þar til hann féll frá árið 1970. Ekkja hans Rut Tryggvason og síðar sonur þeirra Árni Aðalbjörnsson bakari hafa stýrt þessu elsta fyrirtæki bæjarins síðustu áratugi.

 

Norska bakarí starfaði á horni Silfurgötu og Brunngötu frá 1884. Ásgeirsverslun keypti bakaríið kringum 1895 og rak það til ársins 1918, er hún hætti rekstri. 1926 eignaðist Helgi Guðmundsson bakarameistari Norskabakarí og rak það til ársins 1953. Síðast rak Bæring Jónsson Norskabakarí til ársins 1959, er hann flutti rekstur sinn upp í Túngötu 21 og kallaði Nýja bakarí. Bökunarfélag Ísfirðinga hf. reisti árið 1905, ásamt fleirum, stórhýsi við Silfurgötu 11, sem borið hefur nafn Félagsbakarísins síðan. Fyrsti bakari félagsins var Steinn Ólafsson, sem síðar rak bakarí á Þingeyri. Sigurður Guðmundsson (sonur séra Guðmundar frá Gufudal), lærði bakaraiðn ungur og fór í framhaldsnám í Danmörku. Hann stýrði Félagsbakaríinu eftir föður sinn allt til dauðadags árið 1956. Enn er bakað í „Félags.“ Sveinbjörn Halldórsson stofnaði Sveinabakarí við Hafnarstræti árið 1914. Var það fjórða bakaríið í bænum. Sveinabakarí hætti starfsemi þegar Sveinbjörn féll frá árið 1945. Ólafur Þórðarson opnaði bakarí í Hafnarstræti 4 árið 1957. Ólafur lærði bakaraiðn í Félags og starfað um tíma í Gamla. Ólabakarí starfaði til 1964 en þá keypti Guðbjörn Ingason reksturinn og nefndist það þá Búbbabakarí.

Myndir með Ítarefni