Bátasmíðar
Vestfirðingar áttu löngum haga smiði sem smíðuðu árabáta úr þeim efnivið sem nærtækastur var, rekavið. Reki var mikill, sérstaklega á Hornströndum, og þaðan og úr Jökulfjörðum komu margir þekktir bátasmiðir, allt fram á okkar öld. Nútíma skipasmíðar hófust á Ísafirði í Skipabraut Ísafjarðar hjá Bárði G. Tómassyni á Torfnesi árið 1920. Bárður teiknaði og smíðaði smærri og stærri vélbáta á Ísafirði í aldarfjórðung, þar á meðal Dísirnar, fimm 15 tonna báta fyrir Njörð hf. Marsellíus Bernharðsson byrjaði smíði vélbáta í fjörunni við Aðalstræti 13 á kreppuárunum. Hann reisti síðar skipasmíðastöð í Neðstakaupstað, þar sem hann byggði fjölda eikarbáta. Stærstur var Richard, rúmlega 90 tonn að stærð. Eftir 1960 smíðaði Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar stálskip, allt upp í 300 tonna fjölveiðiskip. Þá unnu við stöðina um 70 manns.