Íslenska

Húsasmíði

Halldór Jónsson snikkari var fyrsti íbúi Ísafjarðar, sem reisti sér hús utan verslunarlóða kaupmanna. Hann hefur trúlega lært trésmíði í Danmörku. Árið 1831 fékk Halldór úrskurð amtmanns um það að honum væri heimilt að setjast að í Ísafjarðarkaupstað og stunda þar sína iðn. Reisti hann sér hús í Norðurtanganum. Þegar bærinn tók að vaxa eftir 1860 fjölgaði húsasmiðum eða snikkurum í bænum. Timburhúsin voru í fyrstu einföld að gerð, en þegar tímar liðu stækkuðu þau og fengu bæði ris og gluggakvista. Eftir 1880 kom bárujárnið til landsins, frá Skotlandi, og sló svo rækilega í gegn að öll timburhús voru járnvarin eftir það. Síðar komu reisuleg tilsniðin timburhús frá Noregi, kölluð katalóghús, sem hægt var að panta eftir verðlistum. Loks tóku við innlendir húsasmíðameistarar sem byggðu stórhýsi sem enn setja mark sitt á bæinn, fyrst timburhús og síðar steinhús.

 

Ítarefni

Í manntali frá 1835 voru íbúar á Tanganum 37, þar af fjórir iðnaðarmenn. Auk Halldórs Jónssonar snikkara voru það Jónas Jónasson beykir, síðar kaupmaður, Jóhann Vilhelm Gruntvig snikkari og Jóakim Vigfússon járnsmiður. Hjá kaupmanninum í Hæstakauðstað eru einnig skráðir Andreas Arnesen matros, Gísli Sveinsson fiskijagtarformaður og tveir lausamenn.  Og í Neðsta finnum við Gísla Jónsson lausamann og „fiskijagtar matrós“. Nýir sprotar eru teknir að stinga sér upp, iðnaðarmenn og skútumenn. Og í Neðsta búa þrjár konur, sem skráð er að lifi af „handafla“ og „handavinnu“. Eru þetta fyrstu verkakonurnar sem finnast í manntölum á Ísafirði.

 

Ragúel Á. Bjarnason, vinnukonusonur frá Hóli í Bolungarvík, ólst upp í Jökulfjörðum og komst í vinnu hjá hvalveiðimönnum. Sigldi með þeim til Noregs og nam þar trésmíðar. Flutti til Ísafjarðar eftir 1902 og bjó hér í nokkur ár. Setti upp vélvædda trésmiðju að norskri fyrirmynd við Hrannargötu 1 og byggði næstu fjögur árin hvert stórhýsið á fætur öðru með nýjustu tækni í húsbyggingum:  Ölduna, Félagsbakaríkið, Silfurgötu 2 og 6, Fell og Samkomuhús templara við Hrannargötu. Fjögur húsanna standa enn, en hin brunnu. Trésmiðjan brann líka og Ragúel flutti aftur til Noregs.

               

Edinborgarhúsið var byggt árið 1907 eftir teikningu Rögnvaldar Á. Ólafssonar, fyrsta arkitekts Íslendinga. Byggingameistari var Jón Þ. Ólafsson bróðir Rögnvaldar. Húsið var reist fyrir Edinborgarverslun og stór hafskipabryggja fyrir neðan.  Við Silfurgötu 7 byggði þriðji byggingameistarinn sér hús árið 1907. Það var Árni Sveinsson kaupmaður og trésmíðameistara.

 

Eftir 1920 varð Jón H. Sigmundson húsasmíðameistari áhrifamesti byggingamaður bæjarins. Hann byggði Herkastalann við Mánagötu árið 1921 og húsaröðina við Hafnarstræti 2-8 og Silfurtorg. Þessi hús hefur hann teiknað sjálfur og sam á við um hús hans við Túngötu 15. Jón H. Sigmundsson stjórnaði einnig flestum stórbyggingum næstu árin, sem aðrir teiknuðu, svo sem Kaupfélagshúsinu, Sundhöllinni, Grundargötublokkunum og Húsmæðraskólanum. Annar byggingameistari Páll Kristjánsson var umsvifamikill kringum 1940 og byggði fyrsta fúnkishúsið, Sigtún við Seljalandsveg, en einnig kennarabústaðina við Urðarvegsbrekkuna og eigið hús við Túngötu 7. 

Myndir með Ítarefni