Íslenska

Járnsmíði og vélvirkjun

Járnsmiðir unnu að ýmiskonar smíðum og viðgerðum fyrir stóru verslunarfyrirtækin, svo sem Ásgeirsverslun og Tangsverslun á Ísafirði, Gramsverslun á Þingeyri eða Pétur Thorsteinsson á Bíldudal. Með tilkomu vélbáta varð til stétt vélvirkja. Fyrsta vélaverkstæðið á Ísafirði, og um leið á Íslandi, var stofnuð af J. H. Jessen, dönskum manni sem kom frá Möllerup verksmiðjunum í Esbjerg til að setja niður vélina í Stanley haustið 1902. Jessen giftist hér á Ísafirði og setti á stofn vélsmiðju við Norðurveg. Hann tók marga lærlinga, sem síðar urðu brautryðjendur í vélstjórn og vélvirkjun. Árið 1928 stofnaði Bergsveinn Árnason ásamt fleiri iðnaðarmönnum Vélsmiðjuna Þór, sem var um áratugaskeið stærsta járniðnaðarfyrirtæki í bænum. Félag járniðnaðarmanna á Ísafirði var stofnað 31. desember 1944 af tíu járniðnaðarmönnum í bænum. Nú eru starfandi fjórar vélsmiðjur á Ísafirði.

 

Ítarefni

Við hvalveiðistöðvar Norðmanna hér á Vestfjörðum störfuðu járnsmiðir og vélvirkjar. Hvalveiðiskipin voru knúin gufuvélum og í stærstu hvalstöðvunum voru einnig notaðar gufuvélar í landi. Alls voru starfræktar 8 hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum á 25 ára tímabili eftir 1885, þar af voru 5 stöðvar hér við Ísafjarðardjúp. Í hvalveiðistöðvunum fengu margir Íslendingar vinnu yfir sumarið og þar sáu þeir í fyrsta sinn gufuvélar að verki. Menn geta ímyndað sér upplitið á íslenskum sveitamönnum sem þekktu ekki einu sinni hjólbörur, þegar þeir sáu í fyrsta sinn öxul, sveifarás, hjól og reimar samantengt og notuð til að draga hvalinn upp á skurðarplanið eða til að hífa stór spikstykki eða bein upp í suðukatlana í hvalstöðvunum. Margir íslenskir járniðnaðarmenn lærðu sín fyrstu handtök í hvalveiðistöðvum Norðmanna. Með þeim var lagður ákveðinn grunnur sem skilaði sér þegar Íslendingar sjálfir fóru að nota vélaraflið.

 

Jessen dó úr taugaveiki árið 1910, en einn af þeim sem lærði hjá honum, Þórður Þórðarson tók saman við ekkjuna, Sigþrúði Guðmundsdóttur og rak smiðjuna áfram. Þau eignuðust þrjá syni sem allir urðu vélstjórar. Annað vélaverkstæði var fljótlega stofnað á Ísafirði af versluninnni í Hæstakaupstað, Leonard Tang og söns, eins og hún hét. Bergsveinn Árnason járnsmiður stjórnaði verkstæðinu. Og fleiri smiðjur og verkstæði voru stofnsett. Jens Peter Clausen kom hingað frá Noregi til að starfa við hvalveiðistöðina á Dvergasteini í Álftafirði. Clausen rak mótorverkstæði bæði á Ísafirði og í Hnífsdal á árunum 1907-1916, en fluttist síðar til Önundarfjarðar og starfaði við Sólbakkaverksmiðjuna.

 

Verkstæði Hæstakaupstaðar var aðalsmiðjan á Ísafirði á öðrum og þriðja tug tuttugustu aldar. Því er svo lýst: „Framan af voru einhverjar vélanna fótstignar, en fljótlega voru þær allar reimdrifnar með sérstökum mótor. Var sver öxull í loftinu og á honum hjól er reimar léku um á vinnuvélahjólin …  Var hún (smiðjan) hólfuð í þrennt með timburskil-rúmum. Fremst var eldsmiðja, þá vélasalur og innst birgðageymsla og handverkstofa. Þar voru vinnuborð með veggjum svo og hillur og skápar til verkfærageymslu. Í borðum voru nokkur skrúfstykki og ennfremur voru við hendina vernjuleg handverkfæri s.s. sagir, þjalir, hamrar o.fl. Soðið var í eldsmiðju, en stundum úti við þegar veður leyfði. Í vélasal voru 2 rennibekkir, vélhefill, borvél og fræsari. (Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands. Spurningaskrá 45, smiðir og smiðjur: ÞÞ., skrá 45. Svar Ólafs I. Magnússonar nr. 5312.)

Myndir með Ítarefni