Íslenska

Menntun, menning og mannlíf

Íslenskt þjóðfélag tók stórum breytingum á 19. öld, þegar hér tók að myndast borgaralegt samfélag á evrópska vísu, með verslunarfrelsi, peningahagkerfi og nýrri stéttaskiptingu. Nýju samfélagi fylgdu hugmyndir um lýðfrelsi og lýðréttindi, sem birtust í samtökum og félögum og kosningum til alþingis og sveitarstjórna. Kosningarétturinn var í fyrstu takmarkaður við eignastéttirnar, en varð smám saman almennur. Árið 1915 fengu konur og eignalaust verkafólk kosningarétt. Þéttbýlinu fylgdu ferskir menningarstraumar, leikhús, tónlist og blaðaútgáfa. Kaupstaðirnir tóku forystu í stjórnmálum og menningarmálum, og nýir atvinnuhættir kölluðu á aukna menntun og formlega skóla.