Barnaskólar og gagnfræðaskólar
Barnaskólinn á Ísafirði tók til starfa árið 1874. Fyrir þann tíma var börnum kennt heima, líkt og tíðkaðist til sveita. Skólahús var reist 1875 við Silfurgötu á Ísafirði. Samkvæmt reglugerð skólans var námsefnið: trúarlærdómur, bóklestur, skrift, reikningur, réttritun, landafræði, mannkynssaga og leikfimi. Auk þess eftir efni og aðstæðum danska, enska, dráttarlist, náttúrufræði og söngur. Með fjölgun barna í bænum var ákveðið að byggja nýtt skólahús við Aðalstræti árið 1901. Árið 1907 voru sett fræðslulög með skólaskyldu barna 10-14 ára. Sveitarfélögum var skyld að halda ókeypis barnaskóla í þéttbýli og farskóla í sveitum
Gagnfræðaskóla var komið á fót á Ísafirði árið 1931 og nokkrum árum síðar var nýtt skólahús byggt við Austurveg. Með nýjum fræðslulögum frá 1946 var skólaskylda lengd í 8 ár og skipt í tvö skólastig. Barnaskóla fyrir börn 7-12 ára og gagnfræðaskóla fyrir 13-16 ára. Barnaskólar og gagnfræðaskólar urðu að grunnskólum með nýjum lögum frá 1974. Þá var skólaskyldan aukin í 9 ár og síðar í 10 ár, þegar 6 ára börn voru tekin inn í grunnskólann.
Ítarefni
Héraðsskólar gegndu hlutverki gagnfræðaskóla úti um landið. Héraðsskólinn á Núpi var stofnaður sem lýðskóli af séra Sigtryggi Guðlaugssyni árið 1907. Honum var breytt í héraðsskóla árið 1929 með aðild sýslufélaga og ríkisins. Annar héraðsskóli var stofnsettur í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp árið 1937. Báðir skólarnir voru heimavistarskólar sem þjónuðu sveitum og þorpum í Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu og nemendum víðar að.
Barnaskólar og gagnfræðaskólar urðu að grunnskólum með nýjum lögum frá 1974. Þá var skólaskyldan aukin í 9 ár og síðar í 10 ár, þegar 6 ára börn voru tekin inn í grunnskólann. Barnaskólar í þorpum og bæjum urðu nú grunnskólar og héraðsskólarnir tæmdust og voru flestir lagðir niður í kjölfarið. Árið 1960 settust aðeins 9% hvers árgangs í menntaskóla landsins, það hlutfall hækkaði með fjölgun menntaskóla og fjölbrautaskóla, þannig að nú setjast langflest ungmenni á skólabekk í framhaldsskólum í fjögur ár, auk 10 ára grunnskólagöngu. Stór hluti hvers árgangs fer nú í háskólanám.