Íslenska

Blaðaútgáfa

Stjórnmál og blaðaútgáfa eru nátengd. Þegar Skúli Thoroddsen var skipaður sýslumaður á Ísafirði tók hann að gefa út blaðið Þjóðviljann 1886 og gaf hann út á Ísafirði fram yfir 1900, þegar hann flutti til Bessastaða. Árið 1902 stofnuðu borgarar á Ísafirði blaðið Vestra, sem gefið var út í 15 ár. Frjálslyndir borgarar gáfu út blað sem kallaðist Valurinn 1906-1907 og Dag 1909-1910. Blöðin miðluðu fréttum og skoðunum og kölluðu til sín nýja krafta. Séra Guðmundur Guðmundsson flutti í bæinn frá Gufudal og prédikaði bindindi og jafnaðarstefnu í blaðinu Nirði 1916-1919 og síðar Skutli frá 1923. Blaðaútgáfa var og er ein birtingarmynd höfuðborga og höfuðstaða. Pólitísku blöðin koma sum hver enn út: Skutull, málgagn jafnaðarmanna, Vesturland málgagn íhaldsmanna og sjálfstæðismanna og Ísfirðingur málgagn framsóknarmanna. Baldur fyrir sósíalista, Vestfirðingur fyrir Alþýðubandalagið og Vestri fyrir frjálslynda vinstri menn eru hætt að koma út. Óháð blaðaútgáfa festist í sessi eftir 1975 með Vestfirska fréttablaðinu og síðar Bæjarins besta.

 

Ítarefni

Um aldamótin 1900 var Hannes Hafstein hér sýslumaður og bæjarfógeti. Hann var á fullu í pólitík, líkt og forveri hans Skúli Thoroddsen, sem var dæmdur frá embætti, en kosinn á þing í staðinn. Hannes bauð Skúlamönnum byrginn í alþingiskosningum árið 1900 og fékk til þess stuðning bæði helstu atvinnurekenda og hvalveiðimannanna í Önundarfirði og víðar, sem fluttu kjósendur frítt á kjörstað á Ísafirði með hvalveiðibátum sínum. Og Ásgeirsverslun var líka innan handar með ferðir, fyrir sinn mann. Ísafjarðarsýsla átti tvo þingmenn. Það tókst ekki að fella Skúla, sem fékk 197 atkvæði, en Hannes komst inn með 167 atkvæðum. Það voru ekki margir sem kusu. Athugum það að enn var kosningaréttur ekki almennur. Konur höfðu ekki fengið kosningarétt og ekki heldur eignalaust verkafólk. Og það voru ekki leynilegar kosningar, heldur kusu menn upphátt á kjörfundi. Það dró kjarkinn úr sumum.

 

Leynilegar kosningar voru teknar upp eftir 1902 og konur og vinnufólk fengu kosningarétt árið 1915.  Árið 1921 náðu jafnaðarmenn meirihluta í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar og héldu honum í aldarfjórðung. Allt frá dögum Skúla og Hannesar tókust á tvær öflugar fylkingar í bæjarmálum Ísafjarðar, sem lengi eimdi eftir af. Frá Ísafirði hafa komið margir forystumenn í stjórnmálum, bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna, alþingismenn, ráðherra og forseti Íslands.

Myndir með Ítarefni