Félög og samtök
Mjög líflegt var í félagslífi bæjarins um aldamótin 1900. Alls kyns félög spruttu upp. Má þar nefna Góðtemplararegluna, fyrstu félagshreyfinguna þar sem allur almenningur gat tekið þátt, óháð stétt og stöðu, líka konur. Margir fengu þar sína fystu reynslu af félagsstörfum, sem síðar nýttist í öðrum félagsskap, svo sem verkalýðshreyfingunni. Tónlist og leiklist var líka í heiðri höfð í stúkunum.
Iðnaðarmannafélag Ísfirðinga var stofnað 1888 og hafði að leiðarljósi að styrkja hag og efla menntun félagsmanna. Félagarnir komu sér upp sjúkrajóði og lesstofu og stóðu að stofnun iðnskóla á Ísafirði. Fyrsta verkalýðsfélagið var stofnað árið 1906, en lifði stutt. Það var ekki fyrr en 1916 að verkamenn og hásetar stofnuðu stéttarfélög sem náðu fótfestu í bænum. Nokkrum árum síðar komust þau til áhrifa í bæjarfélaginu í samstarfi við iðnaðarmenn og templara undir forystu jafnaðarmanna.
Kvenfélagið Ósk var stofnað árið 1907 af nokkrum góðborgarakonum í bænum undir forystu Camillu Torfason. Á fundum voru rædd kvenréttindi, en starf félagsins var fyrst og fremst á sviði líknarmála. Félagið stóð að stofnun húsmæðraskóla árið 1912. Bág kjör eldri borgara í bænum rann mörgum til rifja. Það varð kveikjan að stofnun Kvenfélagsins Hlífar. Félagskonur byrjuðu að halda árlegt samsæti fyrir eldri borgara í bænum með skemmtiatriðum og veitingum árið 1907. Þrem árum síðar var félagið formlega stofnað. Hlífarkonur hafa jafnframt sinnt líknar- og menningarmálum.