Íslenska

Iðnmenntun

Iðnaðarmannafélag Ísfirðinga var stofnað árið 1888. Eitt af markmiðum félagsins var að efla menntun iðnaðarmanna. Félagið hafði forgöngu fyrir stofnun iðnskóla á Ísafirði, sem hóf starfsemi sína veturinn 1905. Fyrsta veturinn var eingöngu kennd teikning. Var þetta upphafið að skipulegri iðnskólafræðslu í bænum. Haustið 1905 var Kvöldskóli iðnaðarmanna efldur og alþingi samþykkti styrk til hans. Kennslugreinar voru íslenska, danska, enska, reikningur og bókfærsla, auk teikningar. Iðnskólinn á Ísafirði var annar í röð iðnskóla á landinu.

 

Um 1970 varð Iðnskólinn Ísafirði starfsbrautaskóli, sá fyrsti á landinu sem byggður var upp sem fjölbrautaskóli. Auk iðnnáms voru kenndar við skólann vélstjórn, stýrimannafræði, tækniteiknun og frumgreinar tækniskóla. Kennsla Iðnskólans var sameinuð Menntaskólanum á Ísafirði frá árinu 1987 og skólarnir sameinaðir í kjölfarið.

 

Ítarefni

Samkvæmt reglugerð kvöldskóla iðnaðarmanna frá árinu 1905 stóð skólinn yfir frá október til aprílloka og kennt var milli sjö og tíu á kvöldin. Í reglugerð skólans sagði: Ætlunarverk skólans er að stuðla að almennri mentun fermdra unglinga, einkum þerra er handiðnir stunda, eða eru vandabundnir iðnaðarmönnum. Skólinn starfaði næstu ár í barnaskólanum undir stjórn Árna Sveinssonar, snikkara og kaupmanns. Skólann sóttu „auk námspilta í iðnaði, kvenfólk og karlar, sem stunduðu ýms störf, stúlkur í vistum og karlmenn við sjóróðra,“ segir Arngrímur Fr. Bjarnason í riti sínu um Iðnaðarmannafélagið.

Myndir með Ítarefni