Íslenska

Íþróttir

 

Íþróttir

Fótboltafélag Ísfirðinga var stofnað 1913-1914 og starfaði í tíu ár. Fótboltafélagið Hvöt var stúlknafélag, stofnað 1914 og starfaði í fáein ár. Knattspyrnufélagið Hörður var stofnað árið 1919 og starfar enn. Knattspyrnufélagið Vestri var stofnað 1926, en var löngu síðar breytt í Sundfélagið Vestri. Hörður og Vestri öttu kappi á knattspyrnuvellinum um áratugaskeið. Sameiginlegt lið Ísfirðinga, ÍBÍ, lék til úrslita í 2. deild Íslandsmótsins fimm ár í röð, þar til það vann rétt til að leika í fyrstu deild, efstu deild knattspyrnunnar, sumarið 1962. Lið Ísfirðingar komst aftur í hóp þeirra bestu árið 1981 og lék þar í tvö ár. Nýr völlur var vígður á Torfnesi sumarið 1964. Hann var síðar lagður grasi og er nú aðalleikvangur heimamanna. Auk þess er kominn gervigrasvöllur sem gjörbreytir aðstæðum til fótboltaiðkunar, auk nokkurra sparkvalla víðsvegar um bæinn. 

Skíðaíþróttin hefur löngum verið vinsæl á Ísafirði og Ísfirðingar átt marga afreksmenn í íþróttinni. Sumir þeir fremstu hafa keppt á Vetrarólympíuleikum í skíðagöngu og alpagreinum. Skíðavikan um páska á Ísafirði var fyrst haldin árið 1935. Seljalandsdalur var kallaður Paradís skíðamanna. Fyrsta skíðalyftan á Seljalandsdal, gamla lyftan, var formlega tekin í notkun 7. janúar árið 1968. Mikill einhugur ríkti meðal bæjarbúa um framkvæmdina og má segja að hún hafi verið sameign bæjarbúa. Skíðalyftan varð mikil lyftistöng fyrir skíðaiðkun og áhuga á skíðaíþróttinni á Ísafirði. Segja má að með lyftunni hafi skíðaferðir orðið sú almenningsíþrótt sem flestir stunduðu í bænum. Tvær skíðalyftur til viðbótar voru byggðar næstu árin. Þá var og sett upp barnalyfta, toglyfta með kaðli neðar á Dalnum fyrir börn og byrjendur. Með þessum viðbótum varð Seljalandsdalur eitt fjölbreyttasta og besta skíðasvæði landsins. Árið 1994 féll snjóflóð á Seljalandsdal og eyðilagði öll skíðamannvirki. Eftir það var skíðasvæðið flutt í Tungudal þar sem byggt hefur verið upp framtíðarskíðasvæði Ísfirðinga, en gönguskíðasvæðið er enn á Seljalandsdal.

 

Ítarefni

Knattspyrna er vinsælasta íþrótt á Íslandi. Fyrsti leikurinn sem fram fór á Ísafirði var sumarið 1905 á Þjóðminningardegi Ísfirðinga. Blaðið Vestri á Ísafirði sagði frá 5. ágúst: „Þreyttur fótknöttur“ á Eyrartúni. Tíu menn í hvoru liði, annað í gulum búningum, hitt í svörtum. Fyrirliði gulra var Arngrímur Fr. Bjarnason prentari, fyrirliði svartra Guðmundur Björnsson verslunarmaður. Úrslit: Svartir gerðu eitt „gull“, en gulir ekkert. Leikurinn stóð í eina klukkustund.

Það var um páskana árið 1994 að hann skall á með mikilli snjókomu og stormi. Að morgni 5. apríl 1994 rann gríðarlegt snjóflóð úr Eyrarfjalli í Seljalandsdal og sópaði burtu öllum lyftum, lyftuhúsum, tveim snjótroðurum og markhúsi á skíðasvæðinu. Ekkert mannvirki stóð þar eftir nema gamli skíðaskálinn. Auk þess fór flóðið niður í Tungudal og lagði mestalla sumarhúsabyggð Ísfirðinga í rúst. Einn maður lét lífið í þeim hamförum. Skoðanir voru skiptar um hvar byggja ætti upp skíðasvæði Ísfirðinga að nýju, en eftir að annað snjóflóð hreif með sér nýja lyftu árið 1999 var endanlega ljóst að ekki yrði úr frekari lyftuframkvæmdum á Seljalandsdal. Þá hófst uppbygging á núverandi skíðasvæði í Tungudal, en á Seljalandsdal hefur verið byggð upp myndarleg aðstaða til skíðagöngu.

Myndir með Ítarefni