Íslenska

Skipstjórnarmenntun

Fyrsti sjómannaskóli á Íslandi var stofnaður á Ísafirði árið 1852 og starfaði í fjögur ár. Það voru þilskipaeigendur á Vestfjörðum sem stofnuðu skólann. Aukin skútuútgerð frá Vestfjörðum kallaði á menntaða skipstjórnarmenn. Torfi Halldórsson skipherra veitti skólanum forstöðu. Hann var þá nýkominn frá námi í stýrimannafræðum í Danmörku. Nemendur skólans voru tíu fyrsta veturinn og komu allir af Vestfjörðum nema einn. Sjómannaskólinn á Ísafirði var fyrsti verkmenntaskóli landsins og fyrsti skólinn sem stofnað var til á Vestfjörðum.

 

Síðar var stofnaður annar Sjómannaskóli á Ísafirði. Starfaði hann á veturna frá því laust eftir 1920 og fram til 1940. Þá tóku við siglinganámskeið á vegum Stýrimannaskólans í Reykjavík sem gáfu réttindi til að stjórna minni fiskiskipum. Fiskifélag Íslands stóð fyrir mótornámskeiðum fyrir vélstjóra á bátaflotanum allt frá árinu 1916. Stýrimanna- og vélstjóranámið fluttist síðar til Iðnskólans á Ísafirði.

 

Ítarefni

Torfi Halldórsson fæddist árið 1823 og ólst upp í Dýrafirði. Fyrir þrítugt var hann orðinn skipstjóri á þilskipinu Boga frá Önundarfirði. Árið 1851 fór Torfi til Danmerkur og nam skipstjórnarfræði í Flensborg. Vorið eftir sigldi hann heim á eigin skútu og settist að á Ísafirði. Á sama tíma var annar ungur skútuskipstjóri, Ásgeir Ásgeirsson, að feta sín fyrstu spor í verslun og útgerð á Ísafirði. Að undirlagi Ásgeirs og fleiri þilskipaeigenda var Torfi fenginn til að veita forstöðu sjómannaskóla haustið 1852. Að fjórum árum liðnum flutti Torfi til Flateyrar og settist þar að. Hann stundaði útgerð, landbúskap og verslun á Flateyri um langan aldur, lengst af í samstarfi við Hjálmar Jónsson kaupmann. Torfi Halldórsson dó á Flateyri árið 1906.

 

Þegar Torfi Halldórsson flutti til Flateyrar 1857 féll formlegt skólahald niður, en bæði hann og aðrir skútuskipstjórar, sem sótt höfðu menntun til Danmerkur eða annað, veittu ungum skipstjórnarmönnum tilsögn í siglingafræðum á heimilum sínum.

Myndir með Ítarefni