Starfsgreinaskólar og framhaldsmenntun
Húsmæðraskólinn Ósk
var settur á stofn á Ísafirði haustið 1912, fyrir forgöngu Kvenfélagsins Óskar . Tólf námsmeyjar voru við skólann fyrsta veturinn. Kvenfélagið Ósk rak húsmæðraskólann allt til ársins 1941. Þá voru samþykkt ný lög um húsmæðraskóla og í kjölfarið tók Ísafjarðarkaupstaður við rekstrinum. Stórt og glæsilegt skólahús var reist við Austurveg á árunum 1945-1948. Námið var lengt úr fjórum mánuðum í níu og skólinn gat tekið við allt að 40 nemendum. Á vegum húsmæðraskólans Óskar voru jafnframt haldin matreiðslu- og handavinnunámskeið fyrir almenning. Húsmæðraskólinn sameinaðist Menntaskólanum árið 1990.
Ítarefni
Aðsókn að húsmæðraskólanum Ósk var góð allt frá stofnun hans árið 1912, en erfiðleikar vegna fyrra heimsstríðs, einkum áranna 1917-18, gerðu það að verkum að skólahald féll niður í sjö ár. Þegar skólahald hófst á ný haustið 1924 var ráðin ný forstöðukona að skólanum, Gyða Maríasdóttir, sem stjórnaði skólanum næstu tólf árin. Fröken Gyða var fædd árið 1891 og uppalin á Ísafirði. Hún sigldi til Danmerkur ung að árum til náms í hússtjórnarfræðum og starfaði einnig á matsöluhúsum. Hún hafði getið sér gott orð fyrir störf sín og vonir þær sem bundnar voru við ráðningu hennar til húsmæðraskólans á Ísafirði brugðust ekki. Gyða stjórnaði Húsmæðraskólanum Ósk allt til dauðadags árið 1936. Álit og vinsældir skólans uxu ár frá ári. Frá 1924 var skólinn til húsa í Glasgow, Hrannargötu 9, en síðar í Fjarðarstræti 24, Salem. Í tíð Gyðu var tekin upp kennsla í vefnaði við skólann.
Húsmæðrafræðslan varð til að styrkja heimilismenningu þjóðarinnar, þar sem saman fór áhersla á hagsýni og nýtni við rekstur heimilanna og vandvirkni og fegurð í handverki.
Menntaskólinn á Ísafirði
tók til starfa haustið 1970 í Gamla barnaskólanum við Aðalstræti. Menntaskólinn var mikil lyftistöng fyrir framhaldsmenntun á Vestfjörðum og bæjarsamfélagið á Ísafirði. Haustið 1974 var komið á fót Kvöldskóla á Ísafirði, að frumkvæði kennara við Menntaskólann. Þar var boðið upp á fullorðinsfræðslu með námskeiðum í ensku, dönsku, frönsku, stærðfræði, vélritun og bókfærslu. Kvöldskólinn var upphaf að öldungadeild Menntaskólans á Ísafirði, sem stofnað var til haustið 1981 og segja má að arftaki hans sé Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem sett var á stofn árið 1999.
Menntaskólinn á Ísafirði flutti í nýtt skólahús á Torfnesi árið 1983 og 1990 voru Iðnskólinn og Húsmæðraskólinn sameinaðir skólanum. Þá var tekin upp kennsla í verknámsgreinum auk bóknáms til stúdentsprófs og nýtt verkmenntahús var byggt.
Ítarefni
Áfangar í skólasögu Vestfjarða - framhaldsskólar
1852 – 1856 Sjómannaskólinn á Ísafirði (Torfi Halldórsson)
1905 Kvöldskóli iðnaðarmanna / Iðnskólinn
1906 Unglingaskólinn á Ísafirði
1907 Unglingaskólinn að Núpi, Dýrafirði
1912 Húsmæðraskólinn Ósk
1916 Mótornámskeið Fiskifélags Íslands
1920 Sjómannaskólinn á Ísafirði (stýrimannaskóli Eiríks Einarssonar)
1929 Héraðsskólinn Núpi, Dýrafirði
1931 Gagnfræðaskólinn á Ísafirði
1937 Héraðsskólinn í Reykjanesi
1949 Framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Ísafirði
1970 Iðnskólinn á Ísafirði verður starfsgreinaskóli
1970 Menntaskólinn á Ísafirði
1999 Fræðslumiðstöð Vestfjarða
2005 Háskólasetur Vestfjarða