Íslenska

Tónlistarbærinn

Um aldamótin 1900 var verslunarstjóri í Hæstakaupstaðarverslun Jón Laxdal tónskáld. Hann stjórnaði bæði sönghóp og stofnaði lúðraflokk. Má segja að þar með hafi formleg tónlistariðkun tekið flug á Ísafirði. Söngfélag hafði starfað frá því um 1891 undir stjórn Árna Sveinssonar trésmiðs og kaupmanns. Jón Laxdal tók við stjórn þess og setti upp söngskemmtanir af ýmsu tilefni.

 

Jónas Tómasson tónskáld varð helsta driffjöður tónlistarmála í bænum eftir 1910. Hann stjórnaði kórum, lék á orgel kirkjunnar, kenndi söng í barnaskólanum og starfrækti tónlistarskóla í bænum 1911-1918. Jónas Tómasson var stjórnandi Karlakórs Ísafjarðar og Sunnukórsins um margra ára skeið. Sunnukórinn er blandaður kór, sem stofnaður var á Sólardegi Ísfirðinga 25. janúar 1934 og er enn starfandi.

 

Tónlistarskólinn á Ísafirði hóf starfsemi sína haustið 1948. Skólastjóri var Ragnar H. Ragnar. Ragnar H. var að auki söngstjóri kóranna í bænum, organisti kirkjunnar og söngkennari við skólana. Tónlistarskólinn er ein meginstoð menningar á Ísafirði og rekur útibú á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri. Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar starfar einnig á Ísafirði, þar sem kennt er á hljóðfæri og fram fer nám í listdansi. Í bænum starfar fjöldi kóra auk Sunnukórsins, og má þar nefna Karlakórinn Ernir, kvennakór, kirkjukór og kóra Tónlistarskólans.

 

Ítarefni

Lúðrasveit Ísafjarðar setti svip á samkomur kringum lýðveldisstofnunina árið 1944 og var ómissandi þáttur í hátíðahöldum 17. júní og 1. maí. Leiklist og tónlist sameinuðust á óperettusýningum Sunnukórsins. Fyrst var sett á svið þáttur úr Meyjarskemmunnni 1946-1947 og veturinn eftir var Bláa kannan sýnd við miklar vinsældir. Sigrún Magnúsdóttir var leikstjóri og aðalsöngkona, en Ragnar H. Ragnar lék undir á píanó. Hann var þá nýfluttur til bæjarins. Þetta var stærsta og metnaðarfyllsta leik- og söngsýning sem þá hafði sést á Ísafirði. Sunnukórinn hefur haldið tónleika hvert ár, farið í söngferðalög og sungið inn á hljómplötur. Þá söng kórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Íþróttahúsinu á Ísafirði árið 2004. Það var í fyrsta sinn sem sú hljómsveit heimsótti Vestfirði.

 

Ragnar H. Ragnar flutti til Ísafjarðar frá Íslendingabyggðum í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum ásamt konu sinni Sigríði Jónsdóttur Ragnar. Ragnar byggði upp Tónlistarskólann með alkunnri atorku og eljusemi og stýrði honum styrkri hendi í áratugi. Sigríður J. Ragnar var stoð og stytta skólans. Þau hjón ráku skólann að stórum hluta á heimili sínu, fyrst í Hafnarstræti 2, fyrir ofan Bókhlöðuna, en lengst í Smiðjugötu 5. Þar áttu mörg ungmenni eftirminnilegar stundir í heimi tónlistarinnar í tónfræðitímum og á vikulegum samæfingum nemenda á sunnudögum. Að baki Tónlistarskólanum var Tónlistarfélag Ísafjarðar, stofnað sama ár og skólinn. Félagið stóð að tónleikahaldi með framúrskarandi tónlistarmönnum innlendum og erlendum. Tónlistarskólinn og Tónlistarfélagið og fólkið sem þar stóð í fararbroddi gerðu Ísafjörð að tónlistarbæ.

Myndir með Ítarefni