Samgöngur á landi
Erfiðar heiðar og klettótt strönd henta illa til hestaferða, enda var aldrei mikið um hestaeign í Ísafjarðarsýslum. Fólk fór fótgangandi með fjörum og yfir heiðar til að sækja vinnu eða í öðrum erindum, þeir sem ekki áttu báta. Vegabætur voru fáséðar fyrr á tímum, en með styrkjum frá ríki og sýslufélögum var byrjað að leggja stíga á milli byggða á 19. öld. Bændur og vinnumenn ruddu grjóti úr brautum og hlóðu brýr um mýrlendi með frumstæðum handverkfærum. Þannig urðu heiðavegir greiðari en áður. Bílar námu hér land með nýrri öld og bílvegir voru ruddir útfrá þéttbýlisstöðum. Það var ekki fyrr en eftir 1940, þegar jarðýtur komu til sögunnar að vegagerð tók stórstígum framförum í landinu.
Á fjórða áratugnum varð akfært um Gemlufallsheiði og Breiðadalsheiði, en leiðin frá Ísafirði um Óshlíð opnaðist ekki fyrr en 1949 og árið eftir opnaðist leiðin gegnum Arnarneshamarinn til Súðavíkur. Um sama leyti var loks kominn akfær vegur kringum Dýrafjörð til Þingeyrar og yfir Hrafnseyrarheiði. Dynjandisheiði opnaðist árið 1959 og þá var loks bílfært frá Ísafirði suður til Reykjavíkur. Djúpvegur varð fær árið 1973. Frá þeim tíma hafa vegabætur staðið yfir, þverun fjarða, nýir fjallvegir, bundið slitlag og jarðgöng greiða landleiðina á milli helstu þéttbýlisstaða og af Vestfjörðum á aðalhringveginn, veg númer 1.
Ítarefni
Förum hundrað ár aftur í tímann. Þá eru engir bílar, enginn sími, engar flugvélar, engir akvegir, engin göng. Menn eru nýbyrjaðir að setja vélar í báta og það var bylting. Allt sem ferðast var á landi var farið fótgangandi eða á hestum. Þá var auðvitað hægt að fara á sjó, með handafli og vindafli, það er róandi á árabátum og með seglum. Eitt af því sem er erfitt að ímynda sér, og hefur breyst hvað mest, er vosbúðin. Þá voru ekki til nein regnföt og ekki einu sinni gúmmístígvél. Fólk var alltaf blautt í fæturna. Bæði á ferðalögum, þegar þurfti að fara yfir ár, eða bara við það að sækja kýrnar. „Frá því að vorleysingar hófust og þar til jörð var orðin freðin á haustin og haustrigningar hættar, heyrði það til undantekninga, ef unglingar, einkum drengir, væru þurrir í fætur heilan dag í einu. Allan heyskapartímann, þ.e. 8-10 vikur, voru karlar og konur, sem við heyskap unnu, vot í fætur flesta daga. Sama var með þá, sem unnu að útistörfum vor og haust. Þegar rigningar voru, þá var fólkið vott inn að skinni frá hirfli til ilja.“ (Jóhann Bárðarson. Áraskip. Rvík 1964, 81).
Vegur um Óshlíð og Súðavíkurhlíð
Vegagerð ríkisins fékk fimm bandarískar jarðýtur til afnota á árunum 1943-1945. Ein þeirra var Allis-Chalmers HD 10, sem kom vestur til Ísafjarðar í júní 1946. Hún var 9-10 tonn að þyngd með díselvél frá General Mótors. Kristján J. M. Jónsson varð ýtustjóri, kallaður Kitti á ýtunni. Ýtan fékk viðurnefnið Frænka Charles, eftir vegaverkstjóranum Charles Bjarnasyni og vinsælu leikriti með svipuðu nafni, Frænka Charleys, sem þá hafði verið sýnt á Ísafirði. Ýtan byrjaði að ryðja veg um Óshlíð í júlí 1946, frá Skarfaskeri við Hnífsdal og út í Seljadal. Áfram var unnið þar næstu sumur, þar til vegurinn opnaði 1949.
Sama jarðýta var notuð til að ryðja veg út fyrir Arnardal að Arnarneshamrinum. Haustið 1949 var sprengt gat í gegnum hamarinn, sem kalla má fyrstu jarðgöng á Íslandi. Vegur til Súðavíkur opnaði sumarið 1950. Þá var komin vestur önnur jarðýta, International Harvester TD 9, árgerð 1946. Ýtustjóri var Gunnar Pétursson og síðar Sveinbjörn Veturliðason. (Hörður Kristjánsson. „Fyrsta jarðýtan á Vestfjörðum.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1990-1991. 32. ár, 76-82.)
Vegagerð í Önundarfirði
Að undirlagi norskra hvalveiðimanna var lagt í vegagerð frá Flateyri og inn á Hvilftarströnd árið 1889. Ellefsen var verksmiðjustjóri við hvalveiðistöðina á Sólbakka og lét færa veginn úr fjörunni og upp á bakka. Jón Guðmundsson frá Gafargili, síðar bóndi á Kirkjubóli í Valþjófsdal byrjaði að vinna við vegagerð á Hvilftarströnd undir stjórn Norðmanna. Lærði þar vinnubrögð og meðferð sprengiefna. Var lengi verkstjóri við vegagerð í Önundarfirði. Með honum vann Þórður Sigurðsson síðar bóndi í Neðri-Breiðadal, sem vann við vegagerði í 52 sumur og tók við verkstjórn í vegagerð í Önundarfirði og víðar.
Ófæra/Dalsófæra er undir fjallinu Þorfinni innan við Valþjófsdal í Önundarfirði. Hún er í ytri enda Bjargarkletta, hamrabelti sem nær í sjó fram. Þar var einstigi um mjóa klettasyllu, sem var fær hestum. Sumarið 1892 hrundi begfylla við Ófærugil, sem áður var brúað, en varð nú ófært. Ellefsen hvalveiðistjóri brást vel við bón bænda í firðinum og lánaði menn til að bora og sprengja fyrir nýjum slóða fyrir ófæruna. Grjóthleðsla var sett í gilið og 2ja metra breiður stallur sprengdur í bergið. Vann Jón Guðmundsson að því verki með norskum manni. Voru notaðir handborar og sprengipúður frá hvalveiðibátunum, en ekki dínamít.
Í ágúst 1949 hófst vegagerð úr Hjarðardal og út í Valþjófsdal. Jarðýta í eigu bændafélagsins Einingar á Ingjaldssandi vann að verkinu. Vegurinn um Ófæruna var færður ofar og borað og sprengt. Ýtan ruddi grjótinu burt, en vann að lagfæringum og breikkun á veginum á meðan borað var fyrir næstu sprengingu. Yfirverkstjóri Vegagerðarinnar var Lýður Jónsson, Þórarinn Guðmundsson úr Reykjavík stjórnaði sprengingum og Guðni Ágústsson frá Sæbóli á Ingjaldssandi var ýtustjóri. Tókst þessi vegagerð vel og var akfært út í Dalinn í október um haustið.
Önfirðingar héldu áfram vegabótum í firðinum og smám saman þokaðist vegur inn fyrir Breiðadal og var kominn að Korpuá 1921. Þá tók ungmennafélagið við og lagði veg út fyrir Vífilsmýrar. Vegagerðin tók við veginum eftir 1930 og varð hann þá þjóðvegur. Vegur um Gemlufallsheiði opnaðist 1934 og yfir Breiðadalsheiði 1936. (Guðmundur Steinarr Gunnarsson frá Þorfinnsstöðum. „Af vegagerðarmönnum og upphafi vegagerðar í Önundarfirði og fyrstu notkun sprengiefna í vegagerð 1892.“ Frá Bjargtöngum að Djúpi 7. Hrafnseyri 2004, 131-142).
Tvær nýjar kynslóðir vega sáu dagsins ljós: Nýir vegir voru lagðir um heiðar og firði eftir 1960 og Önundarfjörður var þveraður nýrri brú 1980 og Dýrafjörður 1992. Loks voru Vestfjarðagöng á milli Skutulsfjarðar, Súgandafjarðar og Önundarfjarðar tekin í notkun árið 1996.
Vegagerð í Dýrafirði
Eftir að vegur var lagður um Gemlufallsheiði og Breiðadalsheiði 1936 var akfært frá Ísafirði að Gemlufalli. Voru þá ferjuflutningar frá Gemlufalli yfir til Þingeyrar. Til að flytja bíla var notuð ferja sem smíðuð var á Þingeyri. Hún var í eigu Kaupfélags Dýrfirðinga. Oftast var hún dregin af ferjubátnum. Bílferjan á Þingeyri var einnig notuð til annarra flutninga á Dýrafirði, svo sem heyflutning, fjárflutninga og til að flytja vinnuvélar. Þegar akvegur kom fyrir fjörðinn 1955, lauk ferjan hlutverki sínu. Skúli Sigurðsson síðar bóndi á Gemlufalli var ferjumaður. Ferjan var áfram til staðar þó vegurinn opnaðist, enda oft snjóþungt inni í firðinum. Valgeir Jónsson bóndi á neðri bænum á Gemlufalli tók við flutningnum og Jón sonur hans, bóndi á Lækjarósi tók við af honum, allt þar til brúin yfir Dýrafjörð var tekin í notkun árið 1992. (Guðmundur Steinarr Gunnarsson frá Þorfinnsstöðum. „Ferjuflutningar á bílum á Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi 1953.“ Frá Bjargtöngum að Djúpi 8. 2005, 94-101).
Vegur yfir Þorskafjarðarheiði og um Djúp
Árið 1945 kom jarðýta í fyrsta sinn til vegagerðar upp á Þorskafjarðarheiði. Hún var á vegum Vegagerðarinnar, International Harvester TD9. Þá hafði verið unnið að lagningu vegar inn Langadal í Ísafirði tvö sumur undir stjórn Lýðs Jónssonar. Síðla sumars komust jeppar yfir heiðina úr Þorskafirði og að Arngerðareyri. Unnið var að vegagerð á Þorskafjarðarheiði 1945 og 1946.Vegur var þá kominn alla leið frá Reykjavík og vestur í Þorskafjörð. Sumarið 1946 hóf Guðbrandur Jörundsson áætlunarferðir frá Kinnarstöðum til Arngerðareyrar á tíu hjóla hertrukk sem tók um 20 farþega. Hótel Bjarkalundur opnaði árið 1947, en áður var áningarstaður á Kinnarstöðum. Ekki var þá kominn vegur um Djúpið, en Fagranesið sem keypt var árið 1964 hóf bílaflutninga frá Ísafirði til Ögurs, Bæja og Melgraseyrar, þaðan sem bílfært var suður yfir heiðar. Djúpvegur, frá Ögri til Ísafjarðar opnaði 1973.
Þjóðvegur 60, Vestfjarðavegur opnaðist árið 1959, þegar vegurinn um Dynjandisheiði var opnaður. Áður var Þingmannaheiðin, úr Vatnsfirði suður á Skálmarneseiði, rudd 1949-1951 og Klettháls opnaðist 1953. Þá var kominn vegur um Kleifaheiði til Patreksfjarðar. Áður opnaðist Hrafnseyrarheiðin 1948.