Íslenska

Samgöngur á sjó

Sjórinn var samgönguleið Vestfirðinga, bæði til annarra landa og innan héraðs og fjarða. Seglskip fluttu fólk og varning til landsins frá Kaupmannahöfn eða öðrum hafnarborgum í Evrópu. Bátar voru notaðir til flutninga innan héraðs. Bændur fluttu varning í kaupstað á bátum og sóttu þangað nauðsynjar. Róið var með fiskaflann úr verstöðvum heim til bæja, eða í kaupstað. Báturinn var besta og þægilegasta flutningatækið.

 

Fyrrum sáu erlendir kaupmenn um flutninga til og frá landinu, en á 19. öld eignuðust íslenskir kaupmenn seglskip og önnðust sjálfir inn- og útflugning. Fyrsta gufuskip í eigu Íslendings sem keypt var til vöruflutninga eignaðist Ásgeir G. Ásgeirsson stjórnandi  Ásgeirsverslunar á Ísafirði árið 1893. Skipið var í flutningum á milli Ísafjarðar og erlendra hafna. Áður hafði verslunin keypt lítinn gufubát „Ásgeir litla“ til vöruflutninga á milli útibúa fyrirtæksins við Ísafjarðardjúp. Í þrjá áratugi var Ásgeir litli í áætlunarferðum um Djúpið og víðar í Ísafjarðarsýslum. Síðar tóku vélbátar við áætlunarferðum við Djúp og stofnað var almenningshlutafélag sem sá um rekstur Djúpbátsins allt fram til ársins 2000, þegar vegabætur leystu bátinn af hólmi.

 

Ítarefni

Jóhann Bárðarson segir frá því í bókinni Áraskip að oft hafi verið farið sjóleiðis frá Bolungarvík í kaupstað inn á Ísafjörð, enda var það hagstæðast til flutninga, til dæmis við að sækja kol, salt eða beitu. Tók ferðin þá allan daginn, farið eldsnemma að morgni og komið til baka fyrir myrkur. Róður frá Bolungarvík til Ísafjarðar í sæmilegu veðri tók tvo klukkutíma, en mun lengur ef það var barningur. Oft eru sviptivindar og krappur sjór undir Óshliðinni og illt að vera á ferð í myrkri. Þannig fórust bátar undir Óshlíð 1895 og í janúar 1905. Ef mikið lá við, til dæmis koma þurfti sjúklingi til læknis var hægt að stytta róðratímann. Jóhann segir frá því að haustið 1901 fóru sex valdir menn róandi með mjög veika stúlku til Ísafjarðar á 66 mínútum. Er það um það bil 6,4 sjómílna meðalhraði.

Myndir með Ítarefni