Samgöngur í lofti
Íbúum Ísafjarðar hefur sumum orðið hverft við þegar flugvél flaug inn fjörðinn og settist á sjóinn í Prestabugt utan eyrarinnar hinn 4. júní 1928. Vélin var nefnd Súlan og kom hún aftur mánuði síðar í fyrsta farþegafluginu vestur. Árið 1938 var stofnað nýtt flugfélag á Akureyri sem síðar varð Flugfélag Íslands. Flaug það með farþega á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar öðru hverju næstu ár og tók upp áætlunarflug árið 1945, með Katalínuflugbátum. Annað flugfélag, Loftleiðir, varð hinsvegar á undan að hefja fast áætlunarflug til Ísafjarðar árið 1944 á Stinson-sjóflugvél og síðar Grumman flugbátum. Sjóflugvélarnar lentu yfirleitt á Pollinum og rennt upp í fjöru við Hafnarstræti, eða farþegar voru ferjaðir að Bæjarbryggjunni á bátum.
Flugvöllur var tekinn í notkun haustið 1960 á Skipeyri í Skutulsfirði og hefur verið í notkun fram á þennan dag. Flugfélagið Ernir var starfandi á Ísafirði eftir 1970 og flaug á litla flugvelli við Ísafjarðardjúp og þéttbýlisstaði á Vestfjörðum næstu áratugi, auk þess að sinna sjúkraflugi. Um tíma veitti félagið samkeppni í flugi til Reykjavíkur. Reglubundnar flugferðir voru jafnframt til Þingeyrar eftir að flugvöllur var lagður í landi Sanda um 1960. Flugfélag Íslands sér nú um farþegaflug milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.
Ítarefni
Flugbrautir voru víða lagðar um og eftir 1960. Við Ísafjarðardjúp voru brautir við Bæi á Snæfjallaströnd, Melgraseyri, Arngerðareyri, við héraðsskólann á Reykjanesi og á Strandseljum. Þá var lögð flugbraut í landi Sanda utan við Þingeyri um 1960, í Holti í Önundarfirði 1963 og uppi á hjöllum á Suðureyri. Reglulegar flugferðir voru frá Reykjavík til þessara staða um árabil og jafnframt regluleg póst- og farþegaflug frá Ísafirði. Um tíma flaug Flugfélag Norðurlands á milli Ísafjarðar og Akureyrar í hverri viku.