Frystihús
Á kreppuárunum var leitað nýrra leiða til að auka fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða, við lokun saltfiskmarkaða. Hraðfrysting á fiskflökum hófst hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga og á Bíldudal árið 1936. Fljótlega byrjuðu fleiri á þessari nýju framleiðsluaðferð. Fyrstu frystihúsin voru bæði lítil og fá. Tæknin var þó til staðar í vélvæddum íshúsum. Með endurbótum og nýjum búnaði fjölgaði frystihúsum og afköstin jukust hröðum skrefum. Frystihús var starfandi í hverjum firði og hverri vík, þar sem þéttbýli hélt velli. Frá 1945-1990 störfuðu þrjú stór frystihús á Ísafirði og í Hnífsdal: Norðurtanginn, Íshúsfélag Ísfirðinga og Hraðfrystihúsið í Hnífsdal.
Ítarefni
Árið 1945 voru starfrækt 15 frystihús á Vestfjörðum, frá Patreksfirði til Drangsness, þar af voru 6 við Ísafjarðardjúp. Útflutningur á freðfiski frá landinu óx úr 1000 tonnum árið 1936 í 29.000 tonn árið 1945. Um tíma var fullkomnasta frystihús landsins starfandi í Ísfirðingshúsinu, en það hætti störfum um 1960, þegar togaraútgerð lagðist af um tíma. Með útgerð skuttogara í tengslum við rekstur hraðfrystihúsa um alla Vestfirði varð mikið blómaskeið á Vestfjörðum með fjölgun íbúa og miklum húsbyggingum eftir 1970. Eftir 1980 leið sá tími undir lok með takmörkunum á þorskveiðum og síðar kvótakerfi í sjávarútvegi, sem þýddi mikinn samdrátt í veiðum og vinnslu botnfisks. Hraðfrystihúsin voru rekin af hlutafélögum, oft í eigu nokkurra fjölskyldna eða samvinnufélaga, sem voru burðarásinn í atvinnulífi hvers byggðarlags áratugina eftir 1940 og fram um 1990.