Íslenska

Hvalveiðar og hrefnuveiðar

Vestfirðingar skutluðu hvali með handskutlum, eltu þá á meðan þeim blæddi út og drógu þá að landi. Í fjöru var hvalurinn skorinn og skipt á milli áhafnarinnar og eigenda báts og jarðar, allt eftir föstum reglum, sem skráðar eru í Grágás og Jónsbók, frá fyrstu öldum byggðar í landinu. Hvalreki bjargaði mörgum Íslendingnum frá hungurdauða. Arnfirðingar voru þekktir fyrir að „járna“ hvali fyrr á tíð. Norðmenn starfræktu fjölda hvalstöðva á Íslandi um og eftir aldamótin 1900.

 

Þorlákur Guðmundsson (Hrefnu-Láki) frá Súðavík var frumkvöðull í veiðum á hrefnu með sprengiskutli. Þar má telja vís áhrif norskra hvalveiðimanna í Álftafirði. Hann hóf hrefnuveiðar frá Súðavík árið 1914. Hrefnu-Láki og síðar Karl sonur hans héldu uppi veiðum á hrefnu í Ísafjarðardjúpi um áratuga skeið og lögðu þá að Bæjarbryggjunni á Ísafirði og seldu húsmæðrum hvalkjöt í snæriskippu fyrir hóflegt verð. Hvalveiðar voru bannaðar árið 1985 en á síðari árum hafa þær verið leyfðar á ný.

 

Ítarefni:

Það voru Norðmenn sem fyrstir þróuðu sprengiskutla til veiða á hvölum. Norskir hvalveiðimenn reistu 7 hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum eftir 1883, þar af 5 við Ísafjarðardjúp, en hinar við Önundarfjörð, Dýrafjörð og Tálknafjörð. Fyrsta stöðin reis á Langeyri við Álftafjörð árið 1883 og þær næstu í Önundarfirði og Dýrafirði. Eftir 1890 bættust við stöðvar á Dvergaseinseyri í Álftafirði, Uppsalaeyri í Seyðisfirði, Stekkeyri í Hesteyrarfirði og Meleyri í Veiðileysufirði. Norðmenn komu siglandi á vorin á gufuskipum sem notuð voru til veiðanna. Þeir fluttu með sér timbur í hús og bryggjur og vélar og tæki til vinnslunnar. Margir Vestfirðingar sáu í fyrsta sinn gufuknúnar vélar í hvalstöðvum Norðmanna og kynntust einnig harmonikkuspili. Norðmenn réðu einnig fólk í vinnu og borguðu verkafólki laun í peningum, sem var nýlunda.

 

Mest var veitt af steypireið og langreið en einnig búrhvalur. Lýsið var brætt, kjötið og beinin þurrkuð og möluð. Hvalskíðin voru hinsvegar hreinsuð og seld í tískuhús Evrópu í krínólínkjóla. Bændur í nágrenni hvalstöðva gátu fengið kjöt og spik fyrir lítið. Umsvif þeirra voru mikil áratuginn fram yfir 1900, en eftir það dró úr veiðunum. Margar verksmiðjur voru teknar niður og fluttar austur á firði. Þegar hvalveiðar við Ísland voru bannaðar með lögum árið 1915 var einungis stöðin í Hesteyrarfirði starfandi. Áhrifa norsku hvalveiðimannanna gætti víða í húsbyggingum og kirkjurnar á Mýrum í Dýrafirði og á Hesteyri (nú í Súðavík) voru byggðar úr timbri sem þeir lögðu til.

Myndir með Ítarefni