Íslenska

Íshús

Útgerðarmenn árabáta og síðar vélbáta reyndu sífellt að auka arðsemi veiðanna með nýjungum í veiðarfærum eða bátakosti. Reynslan sýndi að ný og fersk beita var ein besta aðferðin til að auka veiðina. Með því að kæla eða frysta beitu um lengri tíma var hægt að minnka frátafir frá veiðum vegna útvegunar beitu og auka veiðarnar. Fyrstu íshúsin voru byggð með þykkum torfveggjum til að halda kuldanum inni. Í þeim voru skilrúm og þil, þar sem sett var blanda af ís og salti, sem viðhélt kælingu í langan tíma. Þessum íshúsum var hægt að koma upp í hverri verstöð, með sameiginlegu átaki, eða að frumkvæði helstu útgerðarmanna, sem gátu þá leigt í þeim plássið eða selt beitu til annarra útgerðarmanna. Síld var mest notaða beitan.

           

Fyrsta íshúsið á Vestfjörðum byggði Ásgeirsverslun í Neðstakaupstaðnum á Ísafirði árið 1896. Ísinn var tekinn á Pollinum að vetrinum og dreginn á sleðum í húsið. Vélfrysting var tekin upp hjá Íshúsfélagi Bolungarvíkur árið 1928 og næstu ár voru frystivélar settar upp við mörg íshús á Ísafirði, í Súðavík og víðar. Mörg íshúsanna breyttust þannig í frystihús og tóku síðar að hraðfrysta fisk.

Myndir með Ítarefni