Rækjuveiðar og rækjuvinnsla
Rækjuveiðar og rækjuvinnsla hér á landi á upphaf sitt við Ísafjarðardjúp. Það voru tveir Norðmenn, búsettir á Ísafirði sem voru upphafsmenn rækjuveiða við landið. Ole G. Syre og Símon Olsen voru búsettir á Ísafirði og fluttu hingað til lands þekkingu á rækjuveiðum frá heimaslóðum sínum á Karmöy við vesturströnd Noregs. Rækjuverksmiðja Ísafjarðar tók til starfa 23. júní 1936 í Neðstakaupstað. Þeir Ólsen og Syre sáu um að afla verksmiðjunni hráefnis og höfðu þá fundið gjöful rækjumið í Hestfirði. Rækjan var pilluð, lögð í dósir og soðin niður. Sumarið 1936 störfuðu 50 manns við rækjuvinnsluna. Rækjuveiðar lögðust af á stríðsárunum, en hófust á ný eftir 1945 og fljótlega fjölgaði bátum á veiðum og vinnslum í landi. Smærri vélbátar sem áður sóttu á línu á veturna, fóru nú að stunda rækjuveiðar á haustin og fram á vetur. Um 1970 var rækjuiðnaðurinn orðinn einn af hornsteinum atvinnulífs í bæjum og þorpum við Ísafjarðardjúp. Alls voru 7 rækjuvinnslur starfræktar við Ísafjarðardjúp á þessum tíma. Árið 1999 hrundi rækjuveiðin og fór vinnslum fækkandi. Ein rækjuvinnsla er nú á Ísafirði sem byggir mest á úthafsrækjuveiðum. Innfjarðaveiði á rækju er leyfð í litlu magni.
Ítarefni
Fyrstu tilraunina til rækjuveiða gerðu þeir Syre og Olsen árið 1924. Þá hafði Syre keypt vélbátinn Hrönn í Noregi og Simon Olsen kom með bátnum hingað til lands. Í honum var rækjunót, sem þeir reyndu með góðum árangri í Djúpinu. Veiðarnar féllu niður vegna þess að enginn markaður var fyrir þessa nýjung hér á landi. Íslendingar kölluðu tengundina kampalampa, en fljótlega var farið að kalla hana rækju að hætti Norðmanna. Nokkrum árum síðar fékk Sveinn Sveinsson útgerðarmaður á Ísafirði rækjunótina keypta og prófaði hana með góðum árangri. Náði hann að selja nokkuð af soðinni rækju beint frá skiphlið í farþegaskipið Dronning Alexandrine og fleiri skip sem komu á Ísafjörð haustið 1930.
Það var árið 1935 sem samfelldar rækjuveiðar hófust í Ísafjarðardjúpi. Aftur voru þar á ferð Símon Olsen og Ole G. Syre á bátnum Karmöy. Þeir fengu nýja rækjuvörpu frá Noregi og öfluðu vel. Enn reyndist erfitt að koma rækjunni í verð, en þeir félagar náðu að selja eitthvað í búðir Sláturfélags Suðurlands í Reykjavík. Íslendingar voru tortryggnir á þessa nýjung, sem líktist helst risa-marflóm. Í blaðinu Skutli á Ísafirði var auglýst að hægt væri að sjá rækju í útstillingarglugga Kaupfélagsins og kaupa hana nýja. „Ætti fólk ekki að láta útlit skepnunnar hræða sig, heldur herða upp hugann og smakka,“ sagði blaðið.