Íslenska

Útvegsbóndinn

Árabáturinn og færið var lykillinn að lífi Vestfirðinga. Á haustin var róið nánast frá hverjum bæ. Á veturnar og fram á vor var farið í ver. Verstöðvar voru oftast á annesjum, þar sem stutt var á gjöful mið. Þar var hafst við í verbúðum í nokkrar vikur í senn, línan beitt, sótt á sjó og aflinn verkaður. Að lokinni vertíð var gert upp. Formaðurinn og hásetar hans fengu þá sinn hlut og lögðu hann inn hjá kaupmanninum, þar sem fiskurinn var veginn og metinn. Gæftir og aflabrögð, réðu úrslitum um afkomuna. Hvort bóndinn kom heim færandi hendi eða allslaus. Hvort hjáleigubóndinn gat haldið áfram að hokra eða varð að leysa upp fjölskylduna. Hvort vinnumaðurinn gat látið drauminn rætast um að festa sér konu og stofna heimili. Allt hékk það saman við hvernig vertíðin gekk.

 

Á fyrri öldum voru bændur á Vestfjörðum flestir leiguliðar, líkt og tíðkaðist um allt Ísland. Þeir leigðu af kónginum, kirkjunni eða eignamönnum með kvöðum um vinnuframlag auk landskuldar og leigu fyrir búfé. Þannig rak bóndinn bú sitt líkt og fyrirtæki með vinnufólki, vermönnum, leiguliðum og bátum og búfé. Arðurinn rann að stórum hluta til jarðeigandans, en almúginn náði að viðhalda sjálfum sér og stundum eilítið betur.

 

Ítarefni

Svipull er sjávarafli, var sagt. Samt var það svo að fiskveiðar og fiskvinnsla var sú leið sem Vestfirðingar höfðu til að bæta hag sinn. Fiskurinn var aðalútflutningsvaran, en búféð sá fyrir mat og ull í fat. Ef vel aflaðist og verslunarlagið var hagstætt, var hægt að auka arðinn af vinnunni til mikilla muna. Fólk settist að við sjávarsíðuna, stofnaði fjölskyldu og seldi bændum vinnuafl sitt til lands og sjávar. Á fyrri öldum voru ríkustu og valdamestu höfðingjar landsins einmitt á Vesturlandi og Vestfjörðum, þar sem fiskaflinn var mestur. Útvegsbóndinn, sem hélt í verið yfir vetarvertíðina með vinnumönnum sínum og hjáleigubændum, sótti þangað lifibrauð og gjaldeyri. Hertur eða saltaður þorskurinn, sem lagður var inn í kaupstað, var ávísun á nauðsynjar svo sem mjöl og hveiti, en líka munað svo sem léreft, kaffi og tóbak.

Myndir með Ítarefni