Íslenska

Einokunartíminn

Pollurinn í Skutulsfirði er ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi. Eyrin í Skutulsfirði var því ákjósanlegur verslunarstaður fyrr á öldum. Þurrkaður fiskur og lýsi varð helsta útflutningsvara Íslendinga eftir 1400 og dró hingað erlenda kaupmenn.

Konungsvaldið danska nýtti sér samkeppni kaupmanna með því að útdeila verslunarleyfum gegn gjaldi. Árið 1602 var ákveðið að enginn mætti versla við landsmenn nema danskir kaupmenn. Þar með var komið á einokunarverslun danska konungsríkisins sem stóð til ársins 1787.

Kaupmenn fengu þá einokun að ákveðnum verslunarstöðum. Á Vestfjörðum voru verslunarstaðir í Reykjafirði í Árneshreppi, í Skutulsfirði, sem eftir það nefndist Ísafjörður, á Þingeyri við Dýrafjörð og á Patreksfirði. Bannað var að versla á öðrum stöðum og algert bann við verslun við aðrar þjóðir. Á tímum einokunarinnar voru verslunarhús reist á Suðurtanganum og þar stendur enn elsta húsaþyrping á Íslandi, fjögur timburhús frá árunum 1757-1784. Einokunarverslunin var lögð af árið 1787 og stofnaðir voru 6 kaupstaðir kringum landið. Ísafjörður var einn þeirra.

 

Ítarefni

Árið 1787 var ákveðið að leggja af einokunarverslun danska konungsins á Íslandi og gefa þegnum í danska ríkinu kost á að stunda verslun hér á landi. Um leið voru settir á stofn sex kaupstaðir kringum landið, þar sem kaupmenn og iðnaðarmenn máttu setjast að og stunda sína iðju. Enn einu sinni reyndu stjórnvöld í Danmörku að ýta undir nýsköpun og þróun í íslensku samfélagi og vonuðu að kaupstaðirnir yrðu miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar. Einn þessara kaupstaða var Ísafjörður. 

 

Lóð fyrir kaupstaðinn Ísafjörð var mæld út neðan við prestsetrið á Eyri í Skutulsfirði. Þangað komu strax sumarið 1788 siglandi frá Björgvin í Noregi kaupmenn sem sem hugðust nýta sér hina nýju skipan í verslun á Íslandi. Þeir stofnuðu verslun efst á kaupstaðarlóðinni, rétt neðan við útihús prestsins. Hét það síðar Hæstikaupstaður. Hús verslunarstjórans frá 1788 stendur enn á lóðinni, nýuppgert. Á Suðurtanga, neðst á eyrinni, stóðu hinsvegar hús gömlu einokunarverslunarinnar og var síðar kallað Neðstikaupstaður, eða í Neðsta. Eignirnar á Suðurtanganum voru seldar kaupmönnum frá Altona í Holtsetalandi, eða Holstein, sem þá tilheyrði Danmörku. Fljótlega bættust kaupmenn frá Sönderborg í Danmörku í hópinn og fengu útmælda lóð mitt á milli Neðsta og Hæsta og hét það Miðkaupstaður. Með fríhöndluninni var því komin samkeppni á verslunarsvæði Ísafjarðar. Nokkuð sem ekki hafði þekkst í tvær og hálfa öld á tímum einokunarinnar.

Myndir með Ítarefni