Verslun á 19. öld: Frelsi og framfarir
Aukið verslunarfrelsi og samkeppni á 19. öld reyndist íbúum á kaupsvæði Ísafjarðar vel. Með skútuútgerð, bættum verslunarskilyrðum og auknum útflutningi á hákarlalýsi og saltfiski varð Ísafjörður einn helsti verslunarstaður landsins. Ísafjarðarkaupstaður varð miðstöð útgerðar, verslunar og stjórnsýslu í fjórðungnum með beinum siglingum til Kaupmannahafnar og fleiri borga í Evrópu. Saltfiskurinn var verðmætasta afurðin sem flutt var út frá Vestfjörðum á 19. öld, en um tíma var hákarlalýsi jafn mikilvægt. Ásgeirsverslun var langstærsta fyrirtæki á Vestfjörðum fyrir og um 1900, bæði í verslun og útgerð, en einnig voru rekin stór verslunarfyrirtæki í Hæstakaupstað og Miðkaupstað.
Ítarefni
Fyrsti innlendi kaupmaðurinn á Ísafirði var Ólafur Thorlacius kaupmaður og útgerðarmaður á Bíldudal. Af honum tók við Jens Jacob Benediktsson, einnig frá Bíldudal, sem byggði upp öfluga skútuútgerð. Um miðja öldina fjölgaði innlendum kaupmönnum, sem lögðu áherslu á eigin skútuútgerð samhliða verslun við bændur, saltfiskverkun og útflutningi. Þeirra þekktastur var Ásgeir Ásgeirsson skipherra, Ásgeir eldri, en við hann var kennt stærsta verslunarfyrirtæki sem starfaði á Ísafirði á 19. öld og fyrstu árum 20. aldar.
Ásgeirsverslun var stærsti atvinnurekandi á Ísafirði á árunum 1880 og fram til 1918. Verslunin rak þilskipaútgerð, saltfiskverkun, inn- og útflutning, verkstæði, verslanir og bakarí. Ásgeir Ásgeirsson eldri stýrði fyrirtækinu af festu og öryggi. Gerðar voru út 3-4 skútur til hákarla- og þorskveiða og stórt skonnortubrigg, S. Louise, var notað til siglinga með saltfisk til Miðjarðarhafslanda og heim aftur með vörur. Með vaxandi umsvifum í útflutningi og verslun flutti Ásgeir heimili sitt til Kaupmannahafnar og stýrði fyrirtækinu þaðan. Eftir hans dag, árið 1877, tók sonurinn, Ásgeir G. Ásgeirsson eða Ásgeir yngri, við og fljótlega tóku hjólin að snúast hraðar.
Athafnasvæði verslunarinnar var fyrst í stað í hluta Miðkaupstaðarins, en 1883 keypti Ásgeirsverslun Neðstakaupstaðinn. Þar með fékk fyrirtækið stóraukið reitapláss til saltfiskþurrkunar, auk fiskgeymsluhúsa og hafskipabryggju, sem fljótlega var stækkuð. Nú hófst stórveldistími fyrirtækisins, sem var stærsta atvinnufyrirtæki á landinu á sínum tíma. Auk verslana á Ísafirði kom Ásgeirsverslun upp fjölda útibúa frá Hornvík til Arngerðareyrar og vestur á Suðureyri og Flateyri með fiskmóttöku, saltsölu og sölubúðum. Þannig tryggði hún sér fisk frá útvegsmönnum á árabátum á öllu verslunarsvæðinu. Til að auðvelda vöruflutninga var lítið gufuskip, Ásgeir litli, hafður í förum á milli útibúa með fólk og vörur. Annað gufuskip, Á. Ásgeirsson eða Ásgeir stóra, keypti verslunin árið 1893 til vöruflutninga milli Íslands og Evrópulanda. Skipið var 849 rúmlestir að stærð. Það var fyrsta gufuskip í millilandasiglingum í eigu Íslendinga. Meðal nýjunga sem Ásgeirsverslun innleiddi var að leggja brautarteina af hafskipabryggjunni í Neðsta, í gegnum Turnhúsið, út á reitana, að öllum geymsluhúsum og alla leið upp í Miðkaupstað. Þá var talþráður lagður frá faktorshúsinu í Neðsta, þar sem Árni Jónsson verslunarstjóri bjó, og uppí aðalskrifstofurnar við Aðalstræti. Var það fyrsti síminn sem lagður var hér á landi. Auk verslana í Miðkaupstað og Neðsta, átti Ásgeirsverslun Norska bakarí við Silfurgötu og gaf út sérstaka brauðpeninga sem fólk gat tekið út í versluninni og notað í bakaríinu.
Ásgeirsverslun var ekki ein um hituna á Ísafirði eða verslunarsvæði kaupstaðarins, þó að hún væri stærst. Önnur verslunarfyrirtæki í Hæstakaupstað og Miðkaupstaðnum veittu henni verðuga samkeppni. Og svo stofnuðu bændurnir fyrsta saltfiskkaupfélagið, til að bæta hag sinn.
Kaupfélag Ísfirðinga, það elsta með því nafni, var stofnað í marsmánuði árið 1888. Stofnendur voru útvegsbændur við Ísafjarðardjúp og forvígismenn félagsins voru séra Sigurður Stefánsson, prestur og alþingismaður í Vigur, Gunnar Halldórsson, bóndi og alþingismaður í Skálavík í Mjóafirði og Skúli Thoroddsen sýslumaður á Ísafirði. Kaupfélag Ísfirðinga hafði algera sérstöðu meðal kaupfélaga sem bændur stofnuðu um þetta leyti, því það var saltfiskkaupfélag. Helsta söluvara kaupfélaganna á fyrstu árum þeirra var sauðfé á fæti, ull og sláturafurðir, en Kaupfélag Ísfirðinga flutti út saltfisk, sem félagsmenn þess verkuðu. Með samtökum um verslun og samningum við Louis Zöllner, stórkaupmann í Englandi, náðu bændurnir hagstæðari verslunarkjörum heldur en gegnum verslanirnar á Ísafirði.
Kaupfélag Ísfirðinga var pöntunarfélag og hafði ekki opna sölubúð. Bændur í hverjum hreppi mynduðu deild í félaginu og deildarstjóri sá um að safna pöntunum og loforðum fyrir saltfiskinnleggi. Kaupfélagið sendi skip sín heim til félagsmanna í Djúpinu og Jökulfjörðum, þar sem þeir afhentu saltfiskinn og tóku sínar vörupantanir. Þetta var mikið hagræði fyrir bændur. Kaupfélagsmenn börðust gegn skuldaverslun, félagsmenn fengu ekki að taka meira út en þeir lögðu inn og félagið borgaði út í peningum ef innleggið var meira en úttektin. Þannig stuðlaði kaupfélagið að aukinni peninganotkun. Með aukinni þjónustu kaupmanna og verslana á Ísafirði dróst verslun kaupfélagsins samana og félaginu var að lokum slitið.
Hæstakaupstaðarverslun var stærsta verslunin á Ísafirði um 1870 og þar til Ásgeirsverslun krækti í Neðstakaupstaðinn. Eigandinn H.A. Clausen var með höfuðstöðvar verslana sinna í Ólafsvík og rak þar þilskipaútgerð Á Ísafirði rak hann einungis verslun og fiskverkun. Reitarnir í Hæstakaupstað voru kallaðir Riistún eftir verslunarstjóranum M. P. Riis. Hæstakaupstaðarverslunin komst í eigu Leonhards Tang stórkaupmanns í Kaupmannahöfn árið 1890. Gerði verslunin meðal annars út 3 kúttera og kom upp fiskmóttöku í Aðalvík, Jökulfjörðum og Álftafirði. Þá má telja meðal nýjunga, að verslunin í Hæsta setti á stofn brjóstsykursgerð og límonaðiverksmiðju um aldamótin 1900. Þar mátti bæði fá venjulegt límonaði, keisaralímonaði og kampavínslímonaði.
Í Miðkaupstaðnum var Verslun Lárusar Á. Snorrasonar nokkurs megandi. Lárus var verslunarstjóri hjá Ásgeirsverslun um tíma, en keypti verslun Hjálmars Jónsssonar árið 1874 og rak bæði verslun og útgerð til ársins 1902. Gerði hann yfirleitt út 2-3 þilskip. Önnur verslun í Miðkaupstaðnum var verslun Hinriks Sigurðssonar skipherra frá Seljalandi. Eftir fráfall hans komst hún í eigu Magnúsar Jochumssonar og enn síðar var hún seld Árna Sveinssyni. Árni gerðist nokkuð umsvifamikill um tíma og gerði mest út 6 þilskip árið 1898, en færri eftir það. Eftir aldamótin 1900 hallaði undan fæti hjá Árna. Nýr aðili kom og keypti upp verslanir Lárusar og Árna. Það var Edinborgarverslun. Eignaðist hún þar með hús, lóðir og reita í Miðkaupstaðnum á móti Ásgeirsverslun.