Verslun og viðskipti á 20. öld
Verslun og viðskipti blómstruðu á fyrstu árum nýrrar aldar, með auknum íbúafjölda og peningaráðum almennings. Fjöldi sérverslana var stofnaður á Ísafirði og í öðrum bæjum og þorpum Vestfjarða, sem seldu vefnaðarvöru, gjafavörur eða bækur. Iðnaðarmenn, svo sem gullsmiðir, skósmiðir og bakarar opnuðu verkstæði og sölubúðir. Á Ísafirði röðuðu verslanir og þjónusta sér við Hafnarstrætið og Aðalstrætið og nálægar götur. Gömlu krambúðirnar, þar sem til var allt milli himins og jarðar, lögðust af eftir 1918. Kaupfélög voru stofnuð í flestum byggðarlögum og urðu víðast stærsta verslunin í hverju plássi. Á Ísafirði varð Kaupfélag Ísfirðinga helsta verslunin. Kaupmannaverslanir veittu kaupfélögunum verðuga samkeppni. Af þeim átti Björnsbúð á Ísafirði sér lengsta sögu. Nú reka Samkaup og Bónus sitthvora kjörbúðina á Ísafirði. Fjölbreytt verslun og þjónusta einkennir enn miðbæ Ísafjarðar.
Ítarefni:
Bankar og sparisjóðir voru mikilvægur þáttur í þróun viðskipta hér á landi. Landsbankinn var stofnaður 1886, en það var ekki fyrr en með stofnun Íslandsbanka árið 1904, með erlendu hlutafé, sem Íslendingar áttu loks kost á lánsfé til framkvæmda og fjárfestinga. Íslandsbanki opnaði strax útibú á Ísafirði og sama ár yfirtók Landsbankinn sparisjóð sem starfað hafði í kaupstaðnum í tvo áratugi. Á sama tíma stóð yfir bylting í sjávarútvegi, með uppbyggingu vélbátaflotans. Bankarnir reyndust traustir bakhjarlar vélbátaeigenda, saltfiskverkenda og síldarspekúlanta. Sparisjóðirnir í hverju héraði studdu fremur við bak einstaklinga sem vildu byggja hús eða stofna smærri fyrirtæki. Peninganotkun varð almennari í stærri bæjum, þar sem fjölbreyttar sérverslanir blómstruðu og eftir að greiðsla vinnulauna í peningum var lögleidd 1902. Allt fram að fyrri heimsstyrjöld blómstruðu verslun og viðskipti.
Fjöldi sérverslana var stofnaður á Ísafirði fyrir og um aldamótin 1900. Hélst það í hendur við bættar samgöngur, fyrst við Kaupmannahöfn með föstum skipaferðum og síðar við Reykjavík með strandferðaskipum. Fjölgun bæjarbúa og aukin peningaráð ýttu undir blómlega verslun. Iðnaðarmenn buðu framleiðslu sína og þjónustu á mörgum sviðum, frá gullsmiðum og klæðskerum, til hárskera og skósmiða. Bókaverslanir og bakarí, tuskubúðir og tískubúðir, apótek og umboðsverslanir röðuðu sér við Hafnarstrætið og Aðalstrætið og búðir sem seldu gjafavörur, raftæki, málningu og mjólk voru handan við hornið. Nýjar verslanir skutu upp kollinum með breyttum lífsháttum eða tískubylgjum, á meðan aðrar fluttu eða lokuðu, allt eftir duttlungum viðskiptavinanna.
Stóru verslanirnar á Ísafirði hættu starfsemi árið 1918 og nýir eigendur tóku við.
Hinar sameinuðu íslensku verslanir eignuðust þá Ásgeirsverslun og stunduðu þær verslun, útgerð og fiskverkun og byggðu ný og reisuleg verslunarhús á Ísafirði og í Bolungarvík. Félagið lenti fljótt í erfiðleikum og varð gjaldþrota árið 1926.
Kaupfélag Ísfirðinga var stofnað á Ísafirði árið 1920. Félagið óx og dafnaði næstu ár og varð stærsta verslunin í kaupstaðnum á fjórða áratugnum. Kaupfélagið eignaðist hús, reiti og bryggjur Edinborgarverslunar og tók að verka saltfisk auk þess sem það byggði gróðurhús í Reykjanesi og hóf ræktun grænmetis. 1958 opnaði Kaupfélagið kjörbúð á Ísafirði, þá fyrstu sinnar tegundar á Vestfjörðum. Kaupfélagið starfaði til ársins 1995. Björnsbúð var umsvifamikil matvöruverslun sem var stofnuð árið 1904 og var rekin allt til ársins 1997. Fjöldi annarra verslana var á Ísafirði þó þeirra sé ekki getið hér.